Síðasti sjálfboðaliðinn fæddur
Of margir útlendingar í körfunni eða fullkomin staða? Sjöundi hluti.
Fjöldi útlendinga í íslenskum körfuknattleik hafa verið til umfjöllunar í Víkurfréttum og í dag er komið að næsta viðmælanda.
Grindvíkingurinn Jóhann Þór Ólafsson hefur marga fjöruna sopið í íslenskum körfuknattleik, hann lék um tíma en sneri sér svo að þjálfun. Hann tók aftur við þjálfun karlaliðs Grindavíkur fyrir þarsíðasta tímabil en liðið hans var aðeins einum sigurleik frá sjálfum Íslandsmeistaratitlinum á síðasta tímabili. Grindvíkingar hafa nýlega gert breytingar á bandarískum leikmanni sínum en þar fyrir utan eru þrír útlendingar. Þeir eins og u.þ.b. níu önnur lið ætla sér alla leið í vor.

„Ég held að enginn geti þrætt fyrir að deildin hafi sjaldan eða aldrei verið eins jöfn eins og í dag, það er hver einasti leikur upp á líf og dauða. Við erum með u.þ.b. tíu lið sem öll telja sig geta farið alla leið að Íslandsmeistaratitlinum í vor. Þetta væri ekki möguleiki ef lið gætu ekki haft svo marga útlendinga eins og raun ber vitni. Þessi umræða er hálf fyndin oft á tíðum finnst mér, menn eru fljótir að skipta um skoðun eftir því hvernig árar hjá viðkomandi félagi. Þeir sem tala mest á móti þessum fjölda útlendinga eru annað hvort þau lið sem hafa ekki fjármuni til að keppa við hin liðin, eða liðin sem eru með flesta íslenska landsliðsmenn í sínum röðum. Auðvitað hentar þeim þá að hafa bönd á fjölda útlendinga. Auðvitað ætti umræðan samt að vera á hærra plani heldur en þetta og fólk ætti að geta komist að niðurstöðu um hvað henti íslenskum körfuknattleik best. Hins vegar er það síðan alls ekki einfalt mál, ég er alger landsbyggðartútta og elska þegar við förum t.d. á Egilsstaði að keppa, mér finnst frábært hversu vel þeir hafa náð að byggja sitt starf upp á undanförnum árum. Þeir ættu ekki möguleika ef þeim yrðu settar skorður hvað varðar erlenda atvinnumenn. Þannig að ef við viljum að liðin úti á landi geti tekið þátt, þá verðum við einfaldlega að hafa þetta svona. Það munu alltaf koma upp mjög hæfileikaríkir leikmenn eins og Elvar Már Njarðvíkingur, Jón Axel úr Grindavík eða Martin úr KR, þessir strákar munu alltaf fá sín tækifæri. Umræðan virðist svolítið mikið snúast um hinn svokallaða meðal-Jón, að við þurfum að halda slíkum leikmönnum lengur í starfinu því þessir aðilar láta oft á tíðum gott af sér leiða í formi stjórnarstarfa t.d. Hins vegar er ég á þeirri skoðun að síðasti sjálfboðaliðinn sé fæddur, það verður stöðugt erfiðara að fá leikmenn í hin ýmsu sjálfboðastörf, ég man ekki öðruvísi eftir mér en að vera bóna bíla, safna dósum eða hengja upp drapperingar í íþróttahúsinu okkar. Við búum í breyttu samfélagi og eins og ég segi, síðasti sjálfboðaliðinn er hugsanlega fæddur og það mun leiða af sér að félögin fara að verða meira rekin eins og atvinnumannalið.

Ef ég fengi einn valdið þá myndi ég hugsanlega hafa reglu sem myndi segja til um að ákveðinn fjöldi í tólf manna hópi þurfi að vera uppalinn en mínar hugmyndir af þeim fjölda passa vel við umhverfið eins og það er í dag. Ég myndi vilja hafa fjóra, að hámarki sex uppalda leikmenn. Til að minnka rekstarkostnað félaganna væri síðan gáfulegast að vera ekki með neinar hömlur á fjölda Bandaríkjamanna. Af hverju getum við ekki alveg eins leyft sex Bandaríkjamenn í stað fyrirkomulagsins í dag, einn Bandaríkjamann og ótakmarkaðan fjölda Evrópumanna og ég vek athyli á því, margir þeirra eru Bandaríkjamenn með evrópskt vegabréf. Ég er með einn slíkan leikmann í mínum hópi, var með tvo. Ég sé bara ekki muninn á því að vera með alla erlendu leikmennina bandaríska, það myndi keyra verðmiðann á Evrópumönnunum niður og oft á tíðum væru miklu meiri gæði, er ekki verið að kalla eftir sem mestum gæðum?
Það eru margar hliðar á þessu máli og blessunarlega þarf ég ekki að taka ákvörðun um þetta, ég fylgi bara þeirri stefnu sem er uppi hverju sinni og vinn með þá stöðu,“ segir Jóhann Þór.
Viðtal við Jón Ragnar Magnússon
Viðtal við Jón Halldór Eðvaldsson
Viðtal Draupni Dan Baldvinsson
Viðtal við Elvar Má Friðriksson
