Stærsti prófíll bandarísks leikmanns í körfubolta á Íslandi?
Lék með Lakers, hitti Kobe Bryant
„Ég trúi ekki að þessi leikmaður sé kominn til okkar fyrr en hann stendur fyrir framan mig,“ sagði þjálfari Grindavíkur, Jóhann Þór Ólafsson, í haust áður en körfuknattleikstímabilið hófst. Umræddur leikmaður er Deandre Kane, Bandaríkjamaður með ungverskt vegabréf. Það var bið á að hann léti sjá sig og voru háværar raddir í Grindavík uppi um að þetta hefði allan tímann verið allt of stór biti og hann væri ekkert að koma til Íslands. „Betra er seint en aldrei,“ segir í góðu orðatiltæki, Kane missti af fyrsta leik tímabilsins en hefur síðan vaxið ásmegin og á ennþá helling inni, sérstaklega ef hann setur alla orkuna í sinn leik og hættir tuði og nöldri. Málið er bara að hann er svo metnaðarfullur, vill sjá liðsfélaga sína á fullu allan leikinn og hann hatar að tapa.
Kane er fæddur og uppalinn í Pittsburgh í Pennsylvania-fylki í Bandaríkjunum. Hann tók aukaár í menntaskóla til að bæta einkunnirnar sínar og fór svo í Marshall háskólann, lék með þeim í þrjú ár áður en hann færði sig í hinn sterka körfuboltaskóla, Iowa State. Kane var boðið til nokkurra NBA liða til að sýna sig og sanna og var talinn eiga möguleika á að vera valinn í fyrstu umferðinni. Það gerðist hins vegar ekki og því ákvað hann að hefja feril í Evrópu. „Það var mikill munur að flytja mig til Iowa State, ég spilaði á móti mörgum frábærum leikmönnum eins og Andrew Wiggins sem leikur með Golden State Warriors, Joel Embid hjá Philadelphia 76ers og Marcus Smart sem leikur með Boston Celtics. Fyrst ég var ekki valinn í fyrstu umferð ákvað ég að hefja strax atvinnumannaferil í Evrópu en fór næstu sumur á eftir í sumardeildina í NBA, fyrst með Los Angels Lakers árið 2014 og svo með Atlanta Hawks árið eftir. Það var gaman að spila með Lakers, ég hitti goðsögnina Kobe Bryant þá, hann kom að horfa á leikina okkar. Þvílíkur sorgardagur þegar hann dó, ég held að allir körfuknattleiksunnendur hafi átt erfitt þá. Ég setti meira að segja tattú á löppina á mér honum til heiðurs, „Mamba.“ Þegar hlutirnir gengu ekki upp hjá mér í NBA ákvað ég að einbeita mér að Evrópu og spilaði í öllum helstu deildunum, byrjaði í Rússlandi, fór þaðan til Belgíu, Þýskalands, Spánar, Grikklands en stærstan hluta ferilsins var ég í Ísrael.“
Ungverskt vegabréf og peningamót í Bandaríkjunum
Eftir 2016/2017 tímabilið í Rússlandi hafði ungverska körfuknattleikssambandið samband við umboðsmann Kane og bauð honum ungverskt ríkisfang gegn því að hann myndi leika með landsliði þeirra. Kane var snöggur að nýta sér þetta og átti í kjölfarið ennþá betra með að komast að hjá stórum evrópskum liðum því þá gátu þau lið ráðið hann sem Evrópumann í stað þess að hann spilaði sem Bandaríkjamaður en þak er á fjölda Bandaríkjamanna í deildum Evrópu. Þegar á reyndi, gat Kane síðan ekki spilað með ungverska landsliðinu því liðið sem hann var með þá, var að leika í Euroleague sem er sterkasta Evrópukeppni félagsliða í körfuknattleik en er ekki hluti af evrópska körfuknattleikssambandinu. Alþjóða körfuknattleikshreyfingin er ekki komin eins langt eins og knattspyrnan, þar á bæ fara allar stærstu deildir í heimi í frí á meðan landsliðin spila í undankeppnum, því er ekki að skipta í körfunni. Kane datt því í lukkupottinn má segja, gat ekki leikið með „sínu“ landsliði og var með ennþá sterkari samningastöðu og átti einfaldlega frábæran feril í Evrópu. Enginn bandarískur leikmaður sem hefur leikið hér á landi, er með álíka ferilskrá og Kane. Venjulega eru körfuknattleiksmenn í fríi yfir sumarmánuðina en Kane fékk tækifæri í peningadeild sem leikin er yfir sumarið í Bandaríkjunum. „Þetta mót er kallað TBT [The basketball tournament]. Þetta eru mikið atvinnumenn sem höfðu leikið saman með háskólunum sem eru saman í liði, mest hafa 97 lið keppt en oftast var miðað við 64 lið. Einn leikur og sigurliðið heldur áfram, eins og í háskólaboltanum. Fyrst voru ein milljón dollara í verðlaun en svo hækkuðu verðlaunin í tvær milljónir. Ég var í liði sem heitir Overseas Elite og við unnum mótið fimm ár í röð. Síðasta tímabilið mitt í Grikklandi, skall COVID á og keppni var hætt svo við fórum heim til Bandaríkjanna og eignuðumst eitt af þremur börnum okkar þá svo ég var ekki að keppast við að komast aftur til Evrópu og átti í raun von á að ferli mínum sem atvinnumaður í Evrópu væri lokið en þá frétti ég af áhuga frá liði á Íslandi,“ segir Kane
Grindavík verður Íslandsmeistari því ég er í liðinu
Kane þekkir Bandaríkjamanninn sem lék með Grindavík í fyrra og leikur með Haukum núna, Damier Pitts. Það var á síðasta tímabili eftir áramót sem sögusagnir fóru á kreik, að Pitts væri að plata vin sinn til að koma og klára tímabilið með Grindavík en Kane segir að það hafi ekki verið inni í myndinni en hvernig stendur á því leikmaður með svona prófíl, er að spila á Íslandi?
„Þetta var aldrei að fara gerast í fyrra en Ingibergur formaður körfuknattleiksdeildar UMFG, hafði samband við mig síðasta sumar og samningar tókust. Ég og konan mín hugsuðum með okkur, af hverju ekki að prófa Ísland? Ég hef leikið í níu löndum og fannst eitthvað spennandi við Ísland og hingað er ég kominn. Ég kann mjög vel við mig og get alveg hugsað mér að leika hér áfram. Þetta er auðvitað búið að vera mjög furðulegt tímabil vegna ástandsins í Grindavík. Við kunnum frábærlega við okkur í Grindavík, stutt að fara til að komast á æfingu og allt í kringum félagið alveg frábært. Umskiptin tóku sinn toll af okkur og við vorum lélegir og töpuðum mörgum leikjum. Þeir sem þekkja mig, vita að ég þoli ekki að tapa en ég hef mjög mikla trú á liðinu mínu.“
Gróa á Leiti fer stundum á stjá og oft eru sögurnar hennar skemmtilegar. Blaðamaður heyrði að Kane hefði á sinni fyrstu æfingu með Grindavíkurliðinu, talað við allt liðið og sagt að hann væri kominn til að vinna og ef menn myndu ekki spila vörn, myndi hann kjálkabrjóta þá! „Kannski sagði ég eitthvað í þessa átt en málið er ósköp einfalt, vörn vinnur titla. Það er auðvelt að skora, ég get nánast skorað þegar ég vil en það er vörnin sem skiptir öllu máli, með því að verjast er hægt að skora auðvelda körfu hinum megin. Ef við spilum vörn er mjög erfitt að vinna okkur því við erum með frábæra sóknarmenn.
Blaðamaður spurði Kane að lokum út í möguleika Grindavíkurliðsins og án þess að blikka auga svaraði hann. „Við munum verða Íslandsmeistarar því ég er í liðinu. Ég veit að nánast öll liðin ætla sér það sama en þau munu ekki vinna af því að ég er ekki í liðinu þeirra. Ég spila með Grindavík og þ.a.l. verður Grindavík Íslandsmeistari,“ sagði kokhraustur Deandre Kane að lokum.