Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Sterkur sigur Njarðvíkinga – Hogg sá markahæsti í sögunni
Kenny Hogg er orðinn markahæstur í sögu Njarðvíkur. Myndir úr safni VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
fimmtudaginn 20. júní 2024 kl. 09:31

Sterkur sigur Njarðvíkinga – Hogg sá markahæsti í sögunni

Njarðvíkingar gefa ekkert eftir í toppbaráttu Lengjudeildar karla í knattspyrnu. Þeir sóttu Gróttu heim í gær í fyrsta leik áttundu umferðar og tóku öll stigin til að tylla sér á topp deildarinnar – að minnsta kosti í bili því Fjölnir eltir með tveimur stigum og á leik til góða.

Fyrirliði Njarðvíkinga, Kenneth Hogg, skoraði fyrsta mark leiksins og varð með því markahæsti leikmaðurinn í sögu knattspyrnudeildar Njarðvíkur. Þetta var 75. mark Hogg fyrir Njarðvík en fyrra metið átti Sævar Eyjólfsson.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024
Dominik Radic er nú búinn að skora sex mörk í ár og er markahæstur í Lengjudeildinni sem stendur.

Grótta - Njarðvík 2:3

Fyrri hálfleikur var markalaus en Njarðvíkingar héldu boltanum betur en heimamenn, stýrðu heldur leiknum og voru örlítið beittari í sínum aðgerðum.

Kenneth Hogg komst í sögubækurnar snemma í seinni hálfleik þegar hann skoraði opnunarmarkið og um leið 75. mark sitt fyrir Njarðvík (51'). Joao Ananias Jordao Junior átti þá skot utan teigs sem markvörður Gróttu varði en Hogg fylgdi vel á eftir, náði frákastinu og setti boltann í netið.

Í kjölfar marksins fór leikurinn í einhvern fluggír. Grótta sótti inn í teig Njarðvíkinga sem hreinsuðu í innkast. Grótta tók langt innkast inn í teiginn og þar stökk heimamaðurinn Arnar Daníel Aðalsteinsson manna hæst og skallaði í mark Njarðvíkur (54'). Staðan orðin jöfn á ný.

Það tók Njarðvík ekki langan tíma að ná forystu á ný. Þeir fóru í sókn, unnu aukaspyrnu sem Oumar Diouck sendi inn á teig andstæðinganna. Grótta hreinsaði frá og lagði í sókn sem Njarðvík stoppaði og sneri vörn í sókn. Njarðvík sótti upp hægra megin, sendu boltann fram á Hogg sem fór upp að endamörkum og sendi fyrir markið. Þar var Dominik Radic réttur maður á réttum stað og afgreiddi boltann vel í markið (55').

Njarðvíkingar voru fljótir að vinna boltann á ný og senda boltann fram á Kenneth Hogg sem lék inn í teig og sendi nú á Oumar Diouck sem á einhvern ótrúlegan hátt hitti ekki á rammann fyrir opnu marki. Sannarlega líflegar þessar upphafsmínútur seinni hálfleiks.

Bæði lið fengu fleiri færi en markverðir beggja liða sýndu fína takta á milli stanganna. Á 70. míntútu tóku heimamenn hornspyrnu og Grótta virtist jafna leikinn með skallamarki. Dómarinn dæmdi hins vegar aukaspyrnu og Njarðvíkingar héldu í sóknina og eftir smá bras á vallarhelmingi Gróttu átti Hreggviður Hermannsson gott hlaup. Hann komst framhjá varnarmönnum og upp að endamörkum þar sem hann sendi fyrir markið á Radic sem skoraði annað mark sitt og tvöfaldaði forystu Njarðvíkur (72').

Skömmu fyrir leikslok fékk Radic gult spjald en það var annað spjaldið hans í leiknum og honum því vísað af velli. Njarðvíkingar því manni færri síðustu mínúturnar og til að hleypa spennu í leikinn skoraði Arnar Helgi Magnússon sjálfsmark á lokamínútu venjulegs leiktíma (90').

Uppbótartíminn fór í átta mínútur en Njarðvíkingar gáfu ekkert eftir og lönduðu sterkum sigri, þeim sjötta á tímabilinu og þeir fara í efsta sætið á ný.

Keflvíkingar taka á móti Þrótti Reykjavík í kvöld og á laugardaginn fær Grindavík Dalvík/Reyni í heimsókn en þá lýkur áttundu umferð.


Í spilaranum hér að neðan má sjá leik Gróttu og Njarðvíkur.

Grótta - Njarðvík 2:3