Íþróttir

Tap eftir tvíframlengdan leik á Sauðárkróki
Haukur Helgi Pálsson var með ágætis frammistöðu í gær, 19 stig, 11 fráköst, 2 stoðsendingar og 23 framlagspunkta.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
mánudaginn 25. apríl 2022 kl. 08:37

Tap eftir tvíframlengdan leik á Sauðárkróki

Njarðvíkingar töpuðu leik númer tvö í undanúrslitum Subway-deildar karla og eiga því erfitt prógram fyrir höndum ætli þeir sér áfram í úrslitaleikinn en þeir þurfa að vinna þrjá leiki til að takast það. Eftir spennandi leik á móti Tindastóli í gær þurfti tvær framlengingar til að knýja fram úrslit. Stólarnir reyndust sterkari í seinni og fóru því með sigur af hólmi.

Tindastóll - Njarðvík 116:107

(22:19, 18:21, 14:32, 40:22, 9:9, 13:4)

Leikurinn var hnífjafn framan af en í seinni hálfleik tóku Njarðvíkingar að síga fram úr og höfðu náð átján stiga forskoti í lok þriðja leikhluta (54:72). Í fjórða leikhluta brást varnaleikur Njarðvíkinga all svakalega og heimamenn gerðu 40 stig gegn 22 stigum gestanna og það dugði til að jafna leikinn. Í fyrri framlengingu lenti Njarðvík sjórum stigum undir (101:97) en jafnaði í 103:103. Seinni framlengingu tóku heimamenn algerlega, skoruðu þrettán stig gegn aðeins fjórum stigum Njarðvíkinga.

Liðin mætast í þriðja leik á miðvikudag í Ljónagryfjunni og þá verða ljónin að bíta frá sér ef þau ætla sér lengra í keppninni.

Njarðvík: Dedrick Deon Basile 29/9 stoðsendingar, Fotios Lampropoulos 22/8 fráköst, Haukur Helgi Pálsson 19/11 fráköst, Mario Matasovic 19/10 fráköst, Nicolas Richotti 9, Veigar Páll  Alexandersson 6, Logi Gunnarsson 2, Ólafur Helgi Jónsson 1, Snjólfur Marel Stefánsson 0, Rafn Edgar Sigmarsson 0, Maciek Stanislav Baginski 0, Elías Bjarki Pálsson 0.

Tengdar fréttir