Sjálfstæðisflokkurinn
Sjálfstæðisflokkurinn

Íþróttir

Umfjöllun: Grindvíkingar misstu af dýrmætum stigum
Vel klárað hjá Williamson sem skoraði fyrra mark Grindavíkur.
Miðvikudagur 8. ágúst 2012 kl. 21:48

Umfjöllun: Grindvíkingar misstu af dýrmætum stigum

Hafþór Ægir skoraði með sinni fyrstu snertingu og jafnaði fyrir Grindvíkinga undir lok leiks.

Markaskorarinn Iain Williamson

Viðreisn
Viðreisn

Grindvíkingar urðu af ansi dýrmætum þremur stigum fyrr í kvöld þegar botnbaráttan var háð í Pepsi-deildinni í knattspyrnu í Grindavík. Framarar voru í heimsókn en þeir eru í 9. sæti deildarinnar á meðan Grindvíkingar verma botnsætið. Liðin gerðu 2-2 jafntefli en sjálfsagt hefðu bæði lið viljað meira út úr leiknum enda farið að síga á seinni hluta móts og hvert stig mikilvægt.

Bæði lið áttu svokölluð hálffæri á upphafsmínútunum en ekkert hættulegt færi leit dagsins ljós fyrr en á 15. mínútu þegar Alexander Magnússon komst í ákjósanlegt fær eftir að Tomi Ameobi hafi skallað boltann fyrir fætur hans. Alexander vippaði hins vegar boltanum yfir í fínu færi.

Óskar Pétursson þurfti svo að taka á honum stóra sínum á 20 mínútu þegar Framarar sluppu upp hægri kantinn eins og svo oft áður í leiknum og áttu fast skot neðarlega á næstöngina en Óskar varði vel. Á 26. mínútu skoraði Kristinn Ingi Halldórsson mark fyrir Framara góða fyrirgjöf frá vinstri kanti sem Jón Gunnar Eysteinsson skallaði fyrir autt markið þar sem eftirleikurinn var auðveldur fyrir Kristinn Inga.

Skömmu eftir mark Framara komust Grindvíkingar í góða sókn en tvívegis varði Ögmundur vel í marki gestanna. Sóknaraðgerðir Grindvíkinga í fyrri hálfleik voru bitlausar og fátt annað reynt en að dæla boltanum á höfuð Tomi Ameobi í framlínunni. Á 40. mínútu varði Óskar svo glæsilega langskot frá Ásgeiri Gunnari Framara. Skömmu síðar var Óskar aftur mikilvægur fyrir Grindvíkinga en hann varði vel þegar boltinn virtist stefna inn í markið eftir klafs í teignum. Staðan verðskuldað 0-1 í hálfleik.

Grindvíkingar hófu leikinn af miklum krafti í síðari hálfleik en þó þurfti Óskar sem var sennilega besti maður heimamanna í leiknum, að halda þeim inni í leiknum með fínum tilþrifum. Þegar rétt tæplega klukkutími var liðinn af leiknum jöfnuðu Grindvíkingar metin þegar Iain Williamson skoraði eftir undirbúning frá Tomi Ameobi. Williamson óx þegar leið á leikinn

Á 73. mínútu skoraði Kristinn Ingi aftur fyrir Fram eftir mikið klafs og klaufagang eftir hornspyrnu. Þrátt fyrir að Grindvíkingar settu ferska fætur inn í sóknina virtist erfitt fyrir Grindvíkinga að finna netið. Hafþór Ægir Vilhjálmsson kom inn á völlinn þegar tæplega 5 mínútur voru til leiksloka en hann átti eftir að setja mark sitt á leikinn. Hann náði að skora með sinni fyrstu snertingu eftir að Pape Faye hafði skallað að marki. Pape skallaði framhjá Ögmundi í markinu og Hafþór var einn á fjærstönginni og potaði boltanum inn af stuttu færi.

Kannski mætti segja sem svo að úrslitin hafi verið sanngjörn en hvorugt liðið náði að stjórna leiknum á blautu grasinu. Grindvíkingar sýndu karakter með því að koma tvisvar tilbaka og vonandi fyrir þá, er þetta það sem koma skal. Þeir Óskar, Iain Williams og Alexander voru bestir í liði Grindvíkinga í dag en annars var fátt um fína drætti.


Lið Grindavíkur: Óskar Pétursson - Matthías Örn Friðriksson, Ólafur Örn Bjarnason, Mikael Eklund, Ray A. Jónsson, Iain Williamson, Marko V. Stefánsson, Alexander Magnússon, Scott Ramsay, Magnús Björgvinsson, Tomi Ameobi.
Varamenn: Loic M. Ondo, Pape Mamadou Faye, Alex Freyr Hilmarsson, Ægir Þorsteinsson (m), Björn Berg Bryde, Daníel Leó Grétarsson, Hafþór Ægir Vilhjálmsson.
Lið Fram: Ögmundur Kristinsson - Almarr Ormarsson, Alan Lowing, Hlynur Atli Magnússon, Samuel Tillen - Ásgeir Gunnar Ásgeirsson, Jón Gunnar Eysteinsson, Halldór Hermann Jónsson, Samuel Hewson, Kristinn Ingi Halldórsson, Sveinbjörn Jónasson. 
Varamenn: Daði Guðmundsson, Andri Freyr Sveinsson, Hólmbert Aron Friðjónsson, Orri  Gunnarsson, Gunnar O. Birgisson, Stefán B. Jóhannesson, Denis Cardaklija (m).