Til leigu (Skólamatur)
Til leigu (Skólamatur)

Viðskipti

Á meðal stærstu málaskóla landsins
Karl Smári Hreinsson, Stofnandi og eigandi Saga Akademía-málaskóla í Reykjanesbæ. VF-mynd: Jón Hilmarsson
Jón Hilmarsson
Jón Hilmarsson skrifar
föstudaginn 30. júlí 2021 kl. 08:46

Á meðal stærstu málaskóla landsins

Saga Akademía-málaskóli í Reykjanesbæ er á meðal stærstu málaskóla landsins. Stofnandi og eigandi er Karl Smári Hreinsson, íslenskukennari. Skólinn var stofnaður árið 2007 og þjónustaði þegar mest var um 300 nemendum árlega. Aðaláhersla er á íslenskukennslu fyrir nýbúa, auk þess er kennd pólska, enska, spænska, rússnesku og franska í skólanum. Námið fer fram með ýmsum hætti; í hópum, einstaklingskennslu og/eða í gegnum fjarfundabúnað á Skype og Zoom. Þrír til fjórir starfsmenn eru í föstu starfi auk lausráðinna kennara. Skólinn er með starfsleyfi frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu og vinnur samkvæmt námskrá ráðuneytisins. Margir nemenda Sögu Akademíu koma frá Vinnumálastofnun, Virk-starfsendurhæfingu og stórum fyrirtækjum á Reykjanesi. Þar má nefna Icelandair, Bláa lónið, Airport Associates, bílaleigur, hótel, veitingastaði og fiskvinnslufyrirtæki.

Gott orðspor spyrst út

„Margir nemendur eru nokkur ár í skólanum, eru jafnvel að læra íslensku og ensku á sama tíma,“ segir Karl Smári og heldur áfram: „Endurkoma nemenda er einnig mikil enda erum við að fá bestu nemendurna, nemendur sem vilja læra.“

Átta ár síðan byrjað var á fjarkennslu þannig að þegar Covid skall á var stór hluti nemenda þegar í fjarkennslu svo áhrif faraldursins á starfsemi skólans voru ekki svo mikil að sögn Karls Smára. Í málakennslunni er lögð mikil áhersla á málfræði og hefur skólinn til grundvallar málfræðibækur sem Karl Smári og fleiri kennarar hafa samið.

„Íslenskan er erlendum nemendum okkar miserfið,“ að sögn Karls Smára. „Nemendum frá Austur-Evrópu gengur betur en þeim sem koma frá Asíu þar sem meiri líkindi eru með tungumálunum, t.d. gengur pólskum nemendum almennt mjög vel með íslenskuna,“ en langstærsti hluti nemendanna er frá Póllandi.

Bókaútgáfa samhliða málaskóla

Saga Akademía hefur, auk kennslubóka í íslensku, gefið út nokkrar bækur sem fjalla um sögu Tyrkjaránsins á Íslandi 1627. Adam Nichols, prófessor við Maryland-háskóla í Bandaríkjunum, hefur ásamt Karli Smára þýtt Reisubók séra Ólafs Egilssonar á ensku. Enski titillinn er The Travels of Reverend Ólafur Egilsson. Einnig hafa þeir félagar í sameiningu skrifað tvær bækur á ensku um Tyrkjaránið á Íslandi. Fyrri bókin kom út á síðasta ári, og fjallar um Tyrkjaránið í Grindavík 1627, og síðari bókin, sem kom út fyrir um tveim vikum, fjallar um Tyrkjaránið í Vestmannaeyjum 1627. Þessar bækur eru samtals um 800 blaðsíður og eru ítarlegasta efni sem gefið hefur verið út á ensku um Tyrkjaránið á Íslandi.

Adam Nichols er prófessor í Maryland-háskólanum og kenndi í nokkur ár um og eftir 1990 við Maryland-háskóla í herstöðinni á Keflavíkurflugvelli, þegar þeir Karl Smári og Adam kynntust. Þeir ákváðu að þýða íslenskt bókmenntaverk yfir á ensku og fyrir valinu varð Reisubók séra Ólafs Egilssonar. Séra Ólafur var prestur í Vestmannaeyjum þegar Tyrkjaránið átti sér stað árið 1627. Honum var rænt ásamt 242 öðrum Vestmannaeyingum. Ólafur fékk leyfi til að fara til Íslands og safna fé til að kaupa út fjölskyldu sína og aðra Íslendinga. Eftir heimkomuna og eftir hvatningu frá Skálholtsbiskupi skrifaði hann ferðabók um för sína frá Vestmannaeyjum til Afríku. Reisubók séra Ólafs Egilssonar er ein besta og ítarlegasta heimild sem við eigum um Tyrkjaránið á Íslandi, þegar alls um 400 manns var rænt og tugir manna voru drepnir. Bókin er einstök í heiminum, lýsing manns sem var rænt og síðan ferðinni til baka frá Afríku.