Viðskipti

Draumadagar en líka erfiðir
Laugardagur 12. október 2024 kl. 06:03

Draumadagar en líka erfiðir

Nanna er búin að skella í lás eftir 37 ár í verslun.

„Ég viðurkenni að það er smá tregi, þó þetta sé orðið fínt og ég orðin gömul. Þetta eru orðin þrjátíu og sjö ár,“ sagði Nanna Soffía Jónsdóttir á síðasta opnunardegi gjafa- og blómaverslunarinnar Draumalands í Keflavík síðasta laugardag.

Nanna hefur staðið blóma- og gjafavöruvaktina í miðbæ Keflavíkur í nærri fjóra áratugi. Afgreitt hundruð eða líklega þúsundir með bros á vör. Hún hélt rýmingarsölu síðustu vikurnar og á lokdaginn var hún með 80% afslátt. „Það hefur hreinsast vel út úr búðinni sem er gott. Ég læt Kvenfélagið síðan fá restina,“ sagði Nanna við blaðamann VF en er eitthvað sem stendur upp úr eftir öll þessi ár í verslun?

„Þetta er búið að vera skemmtilegt en auðvitað líka stundum ekki eins gaman og erfitt. Það er ekki auðvelt að reka verslun í Reykjanesbæ. Við erum nálægt höfuðborgarsvæðinu og því miður fara margir Suðurnesjamenn þangað og leita ekki fyrst til okkar. En ég vil bara þakka öllum viðskiptavinum mínum og samstarfskonum. Ég fæ meiri tíma fyrir sófann núna,“ sagði Nanna að lokum.