Elfa Hrund fékk einn stóran!
Njarðvíkurmærin Elfa Hrund Guttormsdóttir gerði sér lítið fyrir og fékk einn af stærri gerðinni þegar hún veiddi fyrsta laxinn sinn. Hún var við veiðar í Langá á Mýrum í vikunni og Maríulaxinn kom á fluguna hjá Elfu í Stórhólmakvörn.
„Við settum undir fluguna Haugur og ég byrjaði að kasta og svo bara eftir smástund tók lax. Ég fékk kökk í hálsinn. Ég skal viðurkenna það, þetta var bara þannig tilfinning,“ sagði Elfa Hrund í samtali við Sporðaköst á mbl.is.
Elfa sagði í samtali við Sporðaköst að hún hafi ekki áttað sig á hversu stór fiskurinn var sem hún setti í. Viðureignin stóð í 45 mínútur. „Ég var aldrei stressuð, bara leið virkilega vel enda með góðan leiðsögumann mér við hlið.
„Ég hélt að þetta væri kafari hann var svo stór. Ég sleppti honum og kyssti hann með orðunum; Bless ástin mín,“ sagði Elfa Hrund í spjallinu við Sporðaköst.