Íþróttir

Njarðvík með hörkuleik og staðan jöfn í einvíginu við Fjölni
Njarðvíkingar gáfu ekkert eftir í annarri viðureigninni við Fjölni og lönduðu öruggum sigri. VF-myndir: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
fimmtudaginn 7. apríl 2022 kl. 23:37

Njarðvík með hörkuleik og staðan jöfn í einvíginu við Fjölni

Njarðvíkurliðið mætti vel stemmt til leiks í Ljónagryfjunni í öðrum leiknum gegn Fjölni úrslitakeppni Subway-deildar kvenna. Stelpurnar mættu grimmar og uppskáru sanngjarnan sigur, 80:66. Þriðji leikurinn fer fram á sunnudag á heimavelli Fjölnis.

Njarðvík - Fjölnir 80:66 (1:1)

(25:18, 17:15, 13:20, 25:13)

Það var augljóst frá upphafi leiks að Njarðvíkingar ætluðu sér ekkert annað en sigur. Þær hófu leikinn með sprengikrafti og komust snemma í 12:2. Eftir fyrsta leikhluta leiddi Njarðvík með sjö stigum (25:18). Í öðrum leikhluta dró aðeins úr sóknarkrafti Njarðvíkinga en góð vörn sá til þess að Fjölnir átti áfram í erfiðleikum með að finna leiðina að körfunni. Njarðvík jók forystuna og leiddi með níu stigum í hálfleik (42:33).

Fjölnisstelpur reyndu sitt til að snúa leiknum sér í hag eftir hálfleik og náðu ágætis áhlaupi á Njarðvík. Fjölnir jafnaði og komst yfir þegar langt var liðið á þriðja leikhluta (49:51) en Njarðvíkingar voru ekki á þeim buxunum að missa tökin á leiknum, þær bættu bara í og eftirleiðis dró í sundur með liðunum þar til að lokum fjórtán stiga sigur var í höfn (80:66). Mikilvægur sigur og staðan 1:1 í einvíginu.

Alyah Collier var öflug í vörn og sókn. Hún var í viðtali á Facebook-síðu körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur eftir leik eins og sjá má í spilaranum neðar á síðunni.

Sem fyrr fór Aliyah Collier fyrir sterku liði Njarðvíkinga í kvöld, hún gerði 29 stig, tók átján fráköst og átti fjórar stoðsendingar auk þess að leggja til 38 framlagspunkta. Diane Diéné Oumou átti fínan leik, var með tuttugu stig, tíu fráköst, tvær stoðsendingar og 30 framlagspunkta. Kamilla Sól Viktorsdóttir og Lavína Joao Gomes De Silva gerðu sín tíu stigin hvor og Helena Rafnsdóttir bætti öðrum átta stigum í sarpinn.

Njarðvíkingar eiga dygga stuðningsmenn.

Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á leiknum sem má sjá í myndasafni neðst á síðunni.

Njarðvík - Fjölnir (80:66) | Úrslitakeppni kvenna 7. apríl 2022

Tengdar fréttir